Fjölbreyttar æfingar gefa betri árangur

Í líkamsræktarsal Hilton Reykjavík Spa
Í líkamsræktarsal Hilton Reykjavík Spa

Til að taka framförum við æfingar er nauðsynlegt að breyta æfingakerfum reglulega.  Það þarf að koma líkmanum á óvart. Þegar breytt er um æfingar eykst vöðvaþol og brennsla. Hvort sem verið er að æfa til að grennast eða til að auka vöðvamassa, er fjölbreytni nauðsynleg. Mikilvægt er að sinna  styrktarþjálfun, þolþjálfun, teygjum og jafnvægisæfingum í bland til að ná sem bestum árangri.

Ef  haldið er áfram með sömu æfingarnar viku eftir viku venjast vöðvarnir æfingunum og líkaminn veit hvað í vændum er. Á innan við átta vikum verður líkaminn orðinn það vanur æfingunum að umtalsvert dregur úr árangri. Þá er nauðsynlegt að skipta um æfingaprógram því í upphafi æfinganna var árangurinn mun meiri en átta vikum síðar miðað við sömu æfingar og sömu ákefð. Þetta er mikilvægt að hafa í huga sérstaklega fyrir þá sem eru að reyna að grennast eða styrkjast.

Fjölbreytni er nauðsynleg til að líkams- og heilsurækt verði að lífsstíl og minni hætta verði á að þjálfun verði að kvöð. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við að stunda líkamsrækt til að vera í stakk búin til að takast á við áskoranir og verkefni hins daglega lífs. Að vera í formi til að vera til.

Þolþjálfun

Þolþjálfun eykur hjartslátt og hraðar öndun. Þá  rennur blóðið hraðar um líkamann og öndunin verður hraðari sem þýðir að meira súrefni berst til vöðvanna. Þjálfun á borð við hlaup, sund, skokk, hjólreiðar, æfingar á stigvél er frábær til að auka þol.

Styrktarþjálfun

Til að styrkja kroppin er auðveldlega hægt að beita eigin líkamsþyngd, til dæmis með upphífingum, armbeygjum, hnébeygjum og uppsetum. Styrktaræfingar með lóðum, ketilbjöllum og í tækjum eru einnig tilvaldar en þá er mikilvægt að blanda slíkum æfingum saman og skipta ört. Góður þjálfari kann öll trixin í bókinni og kynnir þig fyrir nýjum æfingum reglulega. Tabataþjálfun og stöðvaþjálfun eru góð æfingakerfi til að auka styrk.

Teygjur og hreyfiteygjur (dynamic stretches)

Teygjur eru mikilvægur þáttur í fjölbreyttri þjálfun. Teygjur og liðleikaæfingar hjálpa til við að ná aukinni tækni í æfingum og getu til að gera æfingarnar rétt og í fullum hreyfiferli. Teygjur og liðleikaæfingar draga úr líkum á meiðslum og áverkum. Teygjur að loknum æfingum eru mikilvægar, oft er gott að fá aðstoð þjálfara við teygjurnar en yoga er einnig frábær leið til að teygja og auka liðleika.

Jafnvægisæfingar

Jafnvægisæfingar verða að vera hluti af fjölbreyttum æfingum, jafnvægisæfingar auka líkamsvitund og bæta líkamsstöðu, styrkja litla vöðva m.a. í kringum um mjaðmir, axlir, ökla og hné. Yoga er frábært æfingakerfi til að auk jafnvægi líkmans, lengja vöðva og rétta úr baki.

Slökun

Mikilvægur þáttur í líkams- og heilsurækt er slökun. Til þess að ná markmiðum þarf hugur og líkami að vinna saman. Slökun í lok æfinga verður að vera til staðar og þá hjálpar nudd einnig til að ná árangri. Til þess að gera líkamsrækt að lífsstíl er nauðsynlegt að huga að andlegu ástandi og rækta núvitund og meðvitund.

Heilbrigð sál í hraustum líkama er það sem við öll óskum okkur. Stundum koma sjúkdómar og slys í veg fyrir að sú ósk rætist að fullu. Við getum þó flest gert heilmikið sjálf til að stuðla að auknu heilbrigði og þar með lengt og aukið gæði eigin lífs og mögulega verið lengur og betur til staðar fyrir þá sem við elskum.

Hér á Hilton Reykjavík Spa sameinum við þessa hluti þar sem fagmenn á öllum þessum sviðum eru til staðar fyrir þig.

Höfundur er Ragnheiður Kristín Guðmundsdóttir, deildarstjóri Hilton Reykjavík Spa