Erum við bara að þjálfa rassvöðvana fyrir útlitið?

Upp á síðkastið hafa stórir og lögulegir rassar verið „vinsælir“ eða í tísku. Margar stórstjörnur hafa verið að láta setja púða í afturendann til þess að öðlast frekari vinsældir og útkoman er mjög misjöfn. Sem þjálfari gleður það mig mjög mikið að „stórir“ rassar séu í tísku vegna þess að rassinn er mjög mikilvægur í mörgum hreyfingum, íþróttum og athöfnum daglegs lífs.

Byrjum á að skoða rassinn, frekar flottur rass ekki satt…?

Þarna sjáum við Gluteus Maximus sem við þekkjum helst sem rassinn, ásamt þremur öðrum vöðvum sem eru einnig í rassinum og gegna þar einnig mikilvægum hlutverkum.

Gluteus Maximus: Aðal vöðvinn í að rétta fótinn til baka og koma honum aftur í rétta stöðu, aðstoðar okkur við að ganga, hlaupa, fara upp stiga, lyfta fætinum til hliðar og standa upprétt.  

Gluteus Medius: Hreyfir lærið frá líkamanum við mjöðm til hliðar og snýr lærinu inn og út við mjöðm

Gluteus Minimus: Hreyfir lærið frá líkamanum við mjöðm til hliðar og snýr lærinu út við mjöðm.

Gluteus Medius og Minimus: Vöðvar sem sjá um að halda okkur stöðugum þegar við lyftum öðrum fætinum, t.d. þegar við löbbum eða hlaupum.

Piriformis: Snýr lærinu í útskeifa stöðu. Dregur lærið frá líkamanum ef lærinu er lyft og hnéð er bogið.

Þegar við hreyfum okkur erum við sjaldnast bara að nota einn vöðva og þegar að við einblínum á að styrkja bara einn vöðva getur það komið niður á hinum.

Það er mikilvægt að þjálfa rassinn, en stærðin á honum skiptir ekki öllu. Þrátt fyrir að einhver sé með stóran rass þá er það ekki endilega merki um að hann sé vel þjálfaður. Það eru margir vöðvar í rassinum sem við þurfum að þjálfa og gerum það með því að gera margar mismunandi æfingar.

Nokkrar góðar æfingar fyrir rassinn eru Deadlift, RDL, mjaðmalyftur, hnébeygjur (muna að spenna rassinn í efstu stöðu), hliðar og framskref með teygju, superman, hundur/asni/beint, hliðarlyftur í liggjandi stöðu og margar aðrar. Þetta eru allt æfingar sem við gerum í tímanum Buttlift, sem og öðrum hóptímum í stöðinni og langar mig því að hvetja sem flesta til að skella sér í tíma og læra nýjar æfingar og rifja upp gamlar, sem stuðla að sterkari og á sama tíma lögulegri rassvöðvum.

Agnes Þóra Árnadóttir