Tíminn á dýnunni

Þegar við byrjum að stunda jóga í hitanum er algengt að við höfum tilhneigingu til að skreppa út úr tímanum til að kæla okkur aðeins niður eða fylla á vatnsbrúsann. Ég ráðlegg alltaf mínum nemendum að gera þetta ekki. Ef ég deili minni reynslu og upplifun af tímanum mínum á dýnunni finnst mér vert að nefna að ég upplifi ákveðna heilunar eiginleika þegar líkaminn er orðinn vel heitur, þolvinnan er í hámarki og ég er að anda í gegnum þreytuna. Þar byrja ég að losa staðnaða orku. Ef við förum út úr salnum og kælum okkur niður getum við misst einbeitinguna og hitann sem við erum búin að vinna í að byggja upp. Það er alltaf mikilvægt að hafa nóg af vatni að drekka með í tímann. Gott er að mæta tímanlega og leyfa sér að hvíla á dýnunni hvenær sem þörf er á, hlusta á líkamann og gera það sem maður treystir sér þann dag. Þetta getur reynt á sjálfsagann, en til þess er leikurinn gerður. Aginn er hluti af jógafræðunum og hjálpar okkur á dýnunni.

 

 

Bakgrunnur og þjálfun Dísu Lareau í yoga á rætur að rekja frá Gosh yoga skólanum í Kalkútta og kennurum sem koma frá þeirri hefð. Aðferðin er Hatha yoga og er sérstaklega hönnuð fyrir upphitaðan sal með raka. Heilræði og ábendingar eiga því við um þessa ákveðnu hefð í yoga.