10 ráð um matarmeðvitund - Mindful Eating

Matarmeðvitund er mikilvæg
Matarmeðvitund er mikilvæg

Öll höfum við lent í því að vera skyndilega búin að stinga einhverju upp í okkur sem við hefðum alveg eins getað sleppt að borða. Ýmist er það græðgi, leiði, ávani eða sú staðreynd að okkur var í bernsku kennt að klára matinn okkar, sem veldur ákvarðanatöku okkar. Gott er að koma sér upp venjum sem stuðla að því að við fáum rétt orkumagn yfir daginn.

Embætti landlæknis hvetur fólk til þess að gefa sér tíma til þess að njóta matarins og borða með athygli, með öðrum orðum hafa vit fyrir okkur í því sem við borðum. Það kallast að búa yfir matarvitund. Þetta er mjög góð leið til að fá rétt magn af orku og næringu yfir daginn án þess að telja hitaeiningar eða fylgja matarplani. Með því að þjálfa matarvitundina erum við hlusta á líkamann og borða rétt magn sem innilheldur þau næringarefni sem við þurfum á að halda.

Nú eru margir að koma úr sumarfríum og því er þetta tilvalinn tími til að temja sér nýjar venjur bæði í vinnunni, skólanum og heima fyrir. 

Til að geta hlustað á líkamann er mikilvægt að drekka nægilega mikinn vökva, en það er misjafnt hversu mikið hver einstaklingur þarf. Mörgum nægir 1-1,5L af vökva á dag en þeir sem hreyfa sig eða tapa miklum vökva þurfa meira[1]. Ef við drekkum ekki nóg af vatni þá getur líkaminn misskilið skilaboð um þorsta sem hungur. Þess vegna er mikilvægt að drekka nóg ætli maður að hlusta á hungurmerki líkamans.

Að sjálfsögðu tekur tíma að þjálfa sig í að skilja merki líkamans og þetta er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu. Við fæðumst með þann hæfileika að borða nákvæmleg það sem við þurfum en glötum honum fljótt þegar utanaðkomandi pressa, sætindi og annað gúmmelaði er kynnt fyrir okkur. Það er ákveðin áskorum að endurheimta þennan hæfileika og æfa sig í að hlusta á líkamann. Ekki láta græðgi, leiða, ávana eða þá staðreynd að okkur var kennt að klára matinn okkar þegar við vorum ung, ráða ferðinni.

Nokkrar aðferðir sem við getum beitt til þess að auka matarvitund eru:

  1. Skoða hvort við séum að borða réttar skammtastærðir. Ekki borða heila skál eða disk af vana. Prófa hvort það nægi að borða minni skammt.
  2. Taka sér nægan tíma til að borða og ekki skófla matnum sig, því þá höfum við ekki tækifæri til að átta okkur á því hvenær við erum orðin södd.
  3. Sitja við borð, leggja hnífapörin niður milli bita, tyggja vel og njóta hvers bita.
  4. Hafa holla kosti í boði og ekki leyfa sér að narta í sætindi í tíma og ótíma.
  5. Ekki koma upp slæmum matarvenjum, eins og að fá sér alltaf eitt kex eftir hádegismatinn.
  6. Ekki endilega festa þig við að þurfa að borða á einhverjum ákveðum tímum, heldur hlustaðu frekar á líkamann.
  7. Velja kosti sem eru góðir fyrir okkur og líkaminn þarf á að halda.
  8. Ekki vera að gera eitthvað annað á meðan þú ert að borða, t.d. horfa á sjónvarpið.
  9. Taka eftir því þegar við byrjum að borða án matarvitundar, þ.e. vera meðvitaður um máltíðina.
  10. Greinum á milli líkamlegs hungurs og tilfinningalegs hungurs.

 

Líkamlegt hungur

 

Tilfinningalegt hungur

Kemur hægt og rólega og er hægt að fresta

VS

Kemur skyndilega og þarf að svala strax

Er hægt að seðja með margvíslegum mat

VS

Veldur löngun í ákveðin mat (pizzu, nammi, ís, o.fl.)

Líkleg/ur til að hætta að borða þegar þú ert södd/saddur

VS

Líkleg/ur til að borða meira en þú þarft

Veldur ekki sektarkennd

VS

Veldur sektarkennd

 

Höfundur er Agnes Þóra Árnadóttir, næringarfræðingur og þjálfari hjá Hilton Reykjavík Spa

M.S. íþróttafræði frá University of Colorado